Erlent

Skiptar skoðanir um Glerbrotið

Hæsti skýjakljúfur Evrópu, The Shard, var opinberaður í Lundúnum í vikunni. Byggingin er 309.6 metrar á hæð og gnæfir yfir borginni. Ekki eru þó allir sáttir með þetta ótrúlega mannvirki.

Byggingu The Shard, eða Glerbrotsins, var fagnað í vikunni en þúsundir lögðu leið sína í miðborg Lundúna til að taka þátt í fögnuðinum. Skipuleggjendur lögðu allt í sölurnar til að vígja bygginguna með viðeigandi hætti.

Tólf laserar og 30 ljóskastarar lýstu upp bygginguna en hún státar af 95 hæðum. Fílharmóníusveit Lundúna sá um undirspilið.

Skiptar skoðanir eru um Glerbrotið.mynd/AFP
Á meðal heiðursgesta var Hamad bin Jassim bin Jaber bin Muhammad Al Thani, forsætisráðherra Katar. Landið sá um að fjármagna framkvæmdir við bygginguna. Talið er að heildarkostnaður við framkvæmdirnar hafi numið tæplega 300 milljörðum íslenskra króna. Framkvæmdir stóðu yfir í 12 ár.

Ekki eru þó allir sammála um ágæti þessarar mikilfenglegu byggingar. Sumir halda því fram að hún afskræmi borgarmynd Lundúna og benda á að 26 hæðir standi enn tómar.

Hægt er að sjá myndband frá vígsluathöfn The Shard hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×