Fótbolti

Alba ætlar að spila á Ólympíuleikunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / getty images
Jordi Alba hefur fullan hug á því að spila með Spánverjum á Ólympíuleikunum í sumar að sögn þjálfara spænska liðsins. Forráðamenn Barcelona hafa áhyggjur af miklu leikjaálagi.

Alba gekk í raðir Börsunga nú fyrr í sumar en bakvörðurinn knái spilaði hverja einustu mínútu með spænska landsliðinu sem fagnaði sigri á EM í upphafi mánaðarins.

Andoni Zubizarreta, yfirmaður knattspyrnumála hjá Barcelona, sagði við spænska fjölmiðla að hann ætlaði að ræða við spænska knattspyrnusambandið til að finna lausn á þessu.

„Ég er mjög rólegur," sagði þjálfarinn Luis Milla. „Ég ræddi við strákinn og hann vill spila á Ólympíuleikunum. Við munum ekkert gefa eftir í þessu. Afstaða okkar í sambandinu er skýr og strákurinn deilir henni."

Vicente del Bosque, landsliðsþjálfari Spánar, er hlynntur því að Alba spili á leikunum. „Það er örugglega hans síðasta tækifæri til þess. Hann var mikilvægur hlekkur í landsliðinu og ég tel að það væri gott fyrir hann að mæta jafnöldrum sínum á þessu móti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×