Skoðun

Forsetaræði

Róbert Trausti Árnason skrifar
Á Kópavogsfundi árið 1662 eða fyrir réttum og sléttum þrjú hundruð og fimmtíu árum fengu Íslendingar svolítið að kynnast kenningum um vald eins manns sem þægi vald sitt beint frá Drottni allsherjar og væri því ekki ábyrgur gagnvart neinum öðrum. Ég rifja upp Kópavogsfundinn vegna þess að ég dreg stórlega í efa réttmæti staðhæfinga merkisbera nýrra sjónarmiða í íslenskum stjórnmálum um að forseti Íslands þiggi milliliðalaust forsetaræðið frá þeim minnihluta atkvæðisbærra manna á kjörskrá sem kusu hann þann 30. júní sl.

Ég tel að erfitt verði að afla fylgis gegn þessu því hugmyndin um forsetaræði á orðið býsna mikið fylgi. Ég er þeirrar skoðunar að forsetaræðið sé aðeins afsprengi aflsmunar og ofbeldis. Hugmyndir um forsetaræði birtast mér í misöfgafullum myndum. Gera þarf uppsteyt gegn þessum hugmyndum. Harmagrátur forseta Íslands á mannamótum og lýsingarnar hans í fjölmiðlum á meintri hnignun Íslands og á eðli þeirra sem eru honum ósammála finnst mér gefa það í skyn að forseti Íslands telji íslenskar mannskepnur svo sneisafullar af brestum að ekki verði hægt að byggja með þeim betra og réttlátara samfélag.

Með nýendurkjörnum forseta Íslands eru allar líkur á að þróun í átt til forsetaræðis nái sér á strik. Ég tel að það muni einkennast af því að forseti Íslands hefur stór orð um dýrð íslenska ríkisins og heiður fósturjarðarinnar og leggur mikið upp úr glæsilegum ytri búningi alls þess sem tilheyrir embætti forsetans. Forseti Íslands mun án efa með ýmsum ráðum drepa á dreif allri gagnrýni og því ráðlegast að bera skoðanir sínar á athöfnum og orðum forsetans ekki á torg nema að vel íhuguðu máli. Forseti Íslands mun síðast en ekki síst lifa á því næstu fjögur ár að eiga óvini sem hann notar sem blóramenn þegar hlutirnir fara úrskeiðis hjá honum svo ekki falli blettur á forseta Íslands. Staða kjörinna fulltrúa fólksins á Alþingi gagnvart forseta Íslands er eins og staða húsdýra gagnvart bónda. Staða sem er engan veginn Alþingi sæmandi.




Skoðun

Sjá meira


×