Skoðun

Ævintýri úr Lýðræðislandi

Júlíus Valdimarsson skrifar
Ýmsir stuðningsmenn frumvarps stjórnlagaráðs tala um að í frumvarpinu felist risastórt skref í lýðræðisátt en í raun er frumvarpið vægast sagt afar fátækt af ákvæðum sem gefa fólkinu ákvarðanavald um mál sem snerta daglega tilveru þess og hag.

Aðeins ein grein frumvarpsins – 65. greinin – veitir þjóðinni það vald (beint lýðræði) að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að ákveða sjálf um sín mál. Samkvæmt þessu ákvæði er hins vegar m.a. óheimilt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlagagerð og skattheimtu.

Þversögnin sem felst í þessu hefur innblásið mig til að gerast skáld eina örskotsstund og búa til lítið ævintýri.

Ævintýri úr Lýðræðislandi„Eitt sinn var land sem hét Lýðræðisland. Það dró nafn sitt af því að í þessu landi ríkti algjört lýðræði, þ.e. fólkið sem bjó þar ákvað alla hluti sín í milli og ef upp komu vandamál voru þau bara rædd og fundin lausn sem kom öllum vel því allir voru sammála um að þjóðfélagið ætti að vera gott fyrir alla sem þar bjuggu.

Einn góðan veðurdag kom einn hálærður fræðimaður með þá tillögu að það væri miklu betra að kjósa fulltrúa til þess að taka allar þessar ákvarðanir, því þá þyrfti fólkið ekki lengur að standa í því stússi. Í þessu fælist mikil hagræðing. Hann kallaði þetta fyrirkomulag „þingræði" þar sem þingfulltrúarnir réðu um málefni fólksins. Hann stakk upp á því – af því hann var alinn upp í Lýðræðislandi – að fólkið myndi sín í milli búa til stjórnarskrá fyrir þetta nýja fyrirkomulag.

Stjórnarskráin varð til og þar var gert ráð fyrir að fólkið kysi fulltrúa til þess að fjalla um málefni þess. Einu málefnin sem voru undanþegin voru hins vegar skattheimta og hvernig skattfénu skyldi ráðstafað, þ.e. til hvers ætti að nota peningana og hvernig peningarnir ættu að skiptast milli fólksins, því þarna voru notaðir peningar sem ávísun á lífsgæðin alveg eins og tíðkast í okkar landi.

Allt var nú sett af stað og auglýst eftir frambjóðendum til þess að taka sæti á þinginu. En þá kom upp stórt vandamál. Enginn fékkst til að bjóða sig fram til að sitja á þinginu. Ástæðan var sú að enginn nennti að taka þátt í svoleiðis, þar sem fulltrúarnir myndu ekki ráða því sem mestu máli skipti fyrir afkomu fólksins og hvað gert væri í landinu. Og hvaða tilgangur væri í því?

Fræðimaðurinn sem lagt hafði fram upphaflegu tillöguna reyndi ásamt ýmsum félögum sínum – sem voru líka mikið lærðir – að fá fólkið til að breyta stjórnarskránni og gefa þinginu meiri völd. Allt kom þó fyrir ekki því fólkið vildi alls ekki missa þann rétt að ákveða sjálft um líf sitt, enda væri það bara mjög skemmtilegt og allt hefði gengið ljómandi vel fram að þessu.

Þannig mistókst þessi tilraun og fólkið í Lýðræðislandi lifði hamingjusamt alla tíð upp frá því."

Öll ævintýri hafa einhvern boðskapHver er svo boðskapurinn í þessu ævintýri? Ég held að hann sé sá að það er ekki hægt að tala um beint lýðræði – ef í því felst ekki ákvörðunarréttur um þau grundvallarmálefni sem snerta afkomu fólks og hvernig sameiginlegu skattfé er ráðstafað. Eigum við að hugleiða í smástund hvernig það væri ef Alþingi væri meinað að taka ákvarðanir um skattamál eða fjárlög, slíkar ákvarðanir væru í höndum fólksins? Það virðist að minnsta kosti súrrealískt að kalla slíkt fyrirkomulag „þingræði". Réttara væri að kalla slíkt fyrirbrigði „lýðræði" því þar réði „lýðurinn" – fólkið – en ekki fulltrúarnir á Alþingi.

Greinarmunur á þingræði og beinu lýðræðiMenn geta haft mismunandi skoðanir á því hvort raunverulegt lýðræði er framkvæmanlegt eða ekki og hvort það sé æskilegt yfirleitt. Það myndi hins vegar auðvelda umræðuna ef gerður yrði greinarmunur annars vegar á þingræði, þar sem fámennur hópur tekur allar mikilvægustu ákvarðanirnar um hag fólks og hins vegar raunverulegu lýðræði, þar sem fólkið annast ákvarðanatökuna.

Alvöru lýðræði er máliðEina leiðin til þess að draumurinn um það þjóðfélag sem langflesta dreymir um verði að veruleika er alvöru lýðræði. Engar raunverulegar breytingar geta orðið með fámennisvaldi; saga aldanna sýnir að það fyrirkomulag leiðir til ójafnaðar og spillingar. Í Porto Allegre í Brasilíu tekur almenningur þátt í fjárlagagerð og ákvarðar um ráðstöfun skattfjár. Þar hefur jöfnuður aukist og spilling nánast horfið. Þetta er 21. öldin, þetta er Lýðræðislandið. Leyfum okkur að fara þangað!




Skoðun

Sjá meira


×