Drekasvæðið verður arðbærara eftir því sem olíuverð hækkar, segir olíusérfræðingur Nordea-bankans, sem telur að Ísland, þótt lítið sé, gæti orðið mikilvægt olíuútflutningsríki. Þetta kom fram á ráðstefnu í dag um olíu á Drekasvæðinu.
Margir spyrja: Erum við ekki komin dálítið fram úr okkur í umræðunni? Aðrir svara: Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Svo mikið er víst: Salurinn í Arion-banka var þéttsetinn fólki sem kom til að hlýða á erindi um hvað olía á Drekasvæðinu gæti þýtt.
Per Mathis Kongsrud, aðstoðardeildarstjóri í norska fjármálaráðuneytinu, varaði við því að olíugróði gæti sett samfélag á annan endann og lýsti því hvernig Norðmenn nota olíusjóðinn til sveiflujöfnunar og geyma fyrir komandi kynslóðir.
„Við höfum notað olíupeningana í auknum mæli en við spörum þó mest af þeim," sagði Per Mathis.
Sérfræðingur norræna Nordea-bankans, Thina Margrethe Saltvedt, aðalgreinandi olíuiðnaðar í bankanum, sagði að olía frá Íslandi gæti skipt máli fyrir heimsmarkaðinn, þar sem í hópi stórra olíuútflutningsríkja væru bara Noregur og Kanada sem teldust með stöðugt stjórnarfar, meðan pólitískur órói einkenndi olíuútflytjendur.
„Það verða oft miklar sveiflur í framboði olíu á heimsmarkaði;" sagði Thina Margrethe.
„Þess vegna er mikilvægt að það séu líka litlir framleiðendur, eins og Ísland getur orðið. Því Íslendingar munu væntanlega flytja út mestan hluta olíunnar og það gæti orðið mikilvægt framlag frá Íslandi með stöðugt og traust stjórnarfar."
Til að olíuvinnsla borgi sig á Drekasvæðinu telur hún að olíuverð þurfi að vera 70-80 dollarar tunnan en það stendur núna í 86 dollurum. Ört vaxandi markaðir, eins og í Kína og Indlandi, hrópi hins vegar á meiri olíu.
„Því lítur út fyrir að olíuverð haldi áfram að hækka og það gerir verkefni eins og á Drekasvæðinu arðvænlegt," segir Thina Margrethe Saltvedt.

