Handbolti

Óskar Bjarni að hætta með landsliðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur og Óskar Bjarni unnu vel saman og náðu einstökum árangri. Nú taka nýir menn við.fréttablaðið/vilhelm
Guðmundur og Óskar Bjarni unnu vel saman og náðu einstökum árangri. Nú taka nýir menn við.fréttablaðið/vilhelm
Guðmundur Guðmundsson og Óskar Bjarni Óskarsson náðu frábærum árangri saman með handboltalandsliðið. Guðmundur hætti eftir Ólympíuleikana í London en Óskar Bjarni hafði fullan hug á því að halda áfram ef hann gæti.

Óskar Bjarni er aftur á móti nýtekinn við danska liðinu Viborg og það er því meira en að segja það fyrir hann að stökkva frá liðinu í landsliðsverkefni. Sérstaklega þar sem illa hefur gengið hjá liði hans í upphafi vetrar.

Viborg situr í næstneðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins unnið leik af fyrstu sjö í vetur. Það er því verk að vinna hjá Óskari í Danmörku.

„Ég verð að viðurkenna að mig langar til þess að vera í kringum þetta. Mig langar að vera með Aroni og strákunum og reyna að púsla þessu öllu saman hjá mér. Það eru forréttindi að starfa með landsliðinu og því erfitt að hætta. Þetta er það skemmtilegt og gefandi," sagði Óskar Bjarni við Fréttablaðið í lok ágúst er hann var að vinna í því að fá að halda áfram með landsliðið.

Fari svo, eins og allt bendir til, að Óskar geti ekki verið þjálfaranum, Aroni Kristjánssyni, innan handar mun reyndur kappi taka hans stöðu.

Það er Gunnar Magnússon sem var í þjálfarateymi Guðmundar Guðmundssonar. Gunnar hefur verið í landsliðsþjálfarateyminu frá því árið 2003 fyrir utan þann tíma sem Viggó Sigurðsson var með liðið.

Gunnar þekkir því umhverfið og strákana í liðinu vel.

„Mér líst bara vel á þetta ef af verður að ég verði aðstoðarþjálfari. Ég hef verið í sífellt stærri hlutverki með Guðmundi og Óskari. Ég er því til í þetta ef til þess kemur," sagði Gunnar sem hefur verið að þjálfa út í Noregi síðustu ár. Hans lið er nú á toppnum í norsku B-deildinni en liðið hefur verið á mikilli uppleið undir stjórn Gunnars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×