Skoðun

Til upplýstrar umræðu – Neðri-Þjórsá

Við hjá NASF, Verndarsjóði villtra laxastofna, erum andvíg virkjunum í Neðri-Þjórsá. Við viljum vernda sjóbirtinginn og stærsta, villta, sjálfbæra laxastofninn á Íslandi. Virkjanir í Neðri-Þjórsá myndu gjörbylta lífríki og umhverfi árinnar. Við mat á afföllum vegna virkjana verður að taka á öllum lífríkisþáttum allan líftíma fiskstofnanna, á öllum búsvæðum vatnasviðsins.

Vistkerfið mun skaðast varanlega. Breyting á vatnsrennsli og lónmyndun veldur súrefnisleysi í árvatninu. Þar með verður dreifing næringarefna önnur og frumframleiðsla raskast, hitastig breytist, neikvæðar sveiflur aukast og lífsskilyrði skordýra versna; bitmý þrífst ekki í uppistöðulónum.

Allt að 97% breytingar verða á vatnsrennsli þar sem lífríki árinnar er blómlegast. Um 90% af fiskgengum búsvæðum eru skammt ofan við Urriðafoss þar sem áhrifin af uppistöðulónunum verða mest. Seiði eru nokkur ár í ánni og skert rennsli og rennslistruflanir minnka lífslíkur þeirra.

Stór hluti seiðanna mun aldrei finna „tilbúna“ niðurgönguleið um seiðaveitur sem verkfræðingar hafa búið þeim. Flest þeirra sem ekki finna leiðina, á þeim skamma tíma sem lífseðli þeirra kveikir í þeim niðurgönguhvöt og segir þeim að þau séu tilbúin að ganga til sjávar, eru því meira og minna dauðadæmd vegna afráns og hrakfara. Frá náttúrunnar hendi eru fæst þeirra þroskuð til að bíða niðurgöngu til næsta árs.

Úttektin sem Veiðimálastofnun gerði á lífríki Þjórsár árið 2001 og sem Landsvirkjun byggir á var unnin á nokkrum vikum og er vægast sagt ekki traustur grunnur til að meta afföll. Ennfremur hafa verkfræðingar Landsvirkjunar viðurkennt að alls óvíst sé um árangur af verkfræðilausnum sem þeir eru að vinna að með Veiðimálastofnun.

Landsvirkjun metur seiðaskaða sem hlýst af framkvæmdunum aðeins 5% og vitnar til reynslu af ánum Columbia og Snake í Bandaríkjunum.

Bandarískir sérfræðingar, sem í áraraðir hafa stundað rannsóknir á áhrifum virkjana á seiði og göngufiska í framangreindum ám, hafa komist að allt annarri niðurstöðu. Þeir segja að heildarafföll muni verða 81-89%, sbr. fyrirlestur líffræðingsins dr. Margaret Filardo á vegum Háskóla Íslands, Stofnunar Sæmundar fróða og NASF í byrjun nóvember sl.

Rannsóknir sýna að afföll seiða í virkjuðum ám eru mikil og viðvarandi. Verkfræðileg tækniþróun hefur litlu breytt. Niðurgönguseiði lemstrast í seiðaveitum og bíða varanlegt tjón af – sem dregur þau til dauða áður en þau ná til sjávar. Í sjónum bíða seiðanna náttúrulegar hættur og afföll eru mikil.

Eftir að hafa hlustað á og lesið álit sérfræðinga Fish Passage Center í Bandaríkjunum tel ég ekki leika nokkurn vafa á því að sjóbirtingsstofninn í Þjórsá muni hverfa með öllu á nokkrum árum. Arðsemi af laxveiðum, þrátt fyrir fyrirætlanir um kaup á netaveiðiréttindum, mun skerðast um 80-90% á fáum árum ef virkjað verður. Vistkerfi árinnar skreppur einfaldlega saman og búsvæði laxa og sjóbirtinga verður ekki nema svipur hjá sjón.

Verði virkjunarhugmyndir í Þjórsá ekki slegnar af strax ber að fá óháða sérfræðinga með viðurkennda þekkingu á búsvæðum og kunnáttu í verkfræðilausnum viðfangsefnisins til að gera ítarlega úttekt á öllum helstu umhverfisþáttum á virkjunarsvæðinu. Hingað til hefur Landsvirkjun ekki lagt fram raunhæfar áætlanir um gönguleiðir laxfiska um eða framhjá stíflumannvirkjunum en telur sig vera að vinna að tilraunum þar að lútandi. Allar tillögur Landsvirkjunar skulu metnar af óháðum þar til bærum sérfræðingum með reynslu af fiskvegagerð á virkjanasvæðum.

Vegna áforma Landsvirkjunar hefur uppbygging í landbúnaði verið í biðstöðu árum saman. Málið hefur vakið úlfúð og sundrungu meðal íbúa og hvorki Landsvirkjun né ríkisvaldið hafa rætt við Veiðifélag Þjórsár sem er lögvarinn gæsluaðili veiðiréttar við ána. Ég óttast að með virkjunum munu margar jarðir verða lágt verðmetnar á þessu svæði.

Grunnvatnsstaða á bökkum Þjórsár gjörbreytist, vatnsþurrð neðan stíflugarða yrði vandamál, svo og heilsuspillandi fok úr efnishaugum og þurrum árfarvegi.

Áhætta af hamfaraflóðum og jarðskjálftum er vanmetin. Fyrirhuguð lón eru ofan á einu virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Upptök sumra stóru skjálftanna árin 1896 og 2000 eru á sjálfum virkjanasvæðunum.

Fólkið í byggðarlögunum meðfram Þjórsá lifir á fjölbreyttum landbúnaði og ferðaþjónustu en forsenda þessara atvinnugreina er óspillt náttúra. Virkjanir í neðri hluta Þjórsár myndu kollvarpa framtíðaráformum íbúanna um hágæðaímynd og spilla allri markaðsstarfsemi í héraðinu á fáum árum.

Landsvirkjun getur ekki þverbrotið lög og reglugerðir og fengið undanþágur frá lax- og silungsveiðilögum. Hún getur ekki farið fram á afslátt af lífríkinu og vikið sér undan að hlíta ákvæðum um meðferð og nýtingu vatnsfalla, vatnalaga, laga um stjórn vatnamála, náttúruverndarlaga, alþjóðasamninga um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamningsins.

Lög og alþjóðasamningar skuldbinda Íslendinga til að vernda villtu sjóbirtings- og laxastofnana í Þjórsá. Vonandi tekst það en ef einnig mætti styrkja lífríkið væri spennandi að byggja stofnana upp og auðga þannig byggðirnar á bökkum Þjórsár með því að veita heimafólki umhverfisvæna atvinnu til frambúðar.




Skoðun

Sjá meira


×