Innlent

Sjúklingur fluttur sjóleiðina frá Flateyri - engin slys hafa orðið á fólki í óveðrinu

Þrátt fyrir að björgunarmenn og lögreglumenn hafi sinnt ýmsum verkefnum síðasta sólarhring vegna óveðursins hafa engin slys orðið á fólki eða óhöpp.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa björgunarsveitir og sjúkralið verið að störfum í nótt.

Störf þeirra hafa aðallega snúist um að aka fólki til og frá vinnu, aðstoða lögreglu við lokanir vega sem og að aðstoða sjúkraflutningamenn við að nálgast sjúkling sem fluttur er sjóleiðina frá Flateyri að Holtsbryggju. Sjúklingurinn verður fluttur með sjúkrabifreið frá Holti í Önundarfirði til Ísafjarðar.

Veður hefur gengið niður í morgun á Vestfjörðum. Rafmagn var skammtað í gær og í nótt af Orkubúi Vestfjarða.

Skutulsfjarðarbraut, milli Holtahverfis og Eyrarinnar, er opin en umferð um þennan vegarkafla er undir sérstöku eftirliti. Þeir vegakaflar sem lokaðir voru vegna snjóflóðahættu í gær og fyrradag hafa ekki verið opnaðir enn.

Þá eru rýmingar enn í gildi sem ákveðnar hvað íbúðarhús, vinnustaði og bóndabæi varðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×