Innlent

Betri ökumenn á ferðinni nú en oft áður

Alls hafa níu einstaklingar látið lífið í umferðarslysum það sem af er ári. Greining á slysum sem áttu sér stað í nóvember og desember stendur nú sem hæst en augljóst er að alvarlegum umferðarslysum fækkar verulega milli ára.

Það sem af er ári hafa 102 alvarlega slys átt sér stað í umferðinni. Árið 2011 voru slys af þessu tagi samtals 145. Þá létust tólf í umferðarslysum á síðasta ári. Þegar litið er lengra aftur í tímann, eða til ársins 2010, kemur í ljós að alvarleg slys voru 185 talsins. Banaslys voru aftur á móti sjö.

Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, segir þessar tölur vera vitnisburð um að mun betri ökumenn séu á ferðinni nú en oft áður.

Hann bendir á að enn eigi eftir að fara yfir og greina þau slys sem áttu sér stað í nóvember og desember, engu að síður er ljóst að árangur er að nást í umferðaröryggi.

Tölurnar séu þannig ánægjulegar en hreint ekki fagnaðarefni. Þá vonast hann til að fólk einbeiti sér í umferðinni og bæti ekki ofan á þessa tölfræði það sem af er ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×