Innlent

Björgunarsveitir á Vestfjörðum snúa sér að flugeldasölu - fengu pláss á Ísafirði

Flugeldasala Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefur farið úr skorðum á Vestfjörðum vegna veðurofsans sem geisað hefur þar síðustu daga. Nú þegar veður tekur að lægja einblína björgunarsveitirnar á að koma sölunni í gang á ný eftir að hafa grafið samborgara sína úr fannferginu síðustu tvo sólarhringa.

Björgunarfélag Ísafjarðar og Björgunarsveitin Tindar í Hnífsdal hafa síðustu ár staðið í sölu á flugeldum í sameiningu. Salan hefur farið fram í félagsheimilinu í Hnífsdal. Nú er hins vegar óvíst með söluna enda er enn snjóflóðahætta á svæðinu.

Haraldur Júlíusson hjá Björgunarfélagi Ísafjarðar, sem situr í flugeldanefnd, segir að sveitirnar hafi fengið pláss á Ísafirði til að selja flugeldana.

„Jú, við fengum leyfi til að selja á Ísafirði og það er allt hið besta mál," segir Haraldur. „Við munum selja hjá Fiskmarkaði Suðurnesja við Sindragötu 11."

Flutningabílarnir sitja hins vegar fastir í Hnífsdal en vonast er til að þeir verði komnir til Ísafjarðar á næstu klukkutímum.

„„Það hefur allt verið á fullu hjá okkur síðustu tvo sólarhringa," segir Haraldur. „Sjálfur hef ég lítið komið að því en það eru nokkir hérna sem sjá rúmið í hyllingum. En það þýðir ekkert að sofa — þetta er lífæðin okkar þessi blessaða flugeldasala."

Þannig vonast Haraldur til að hefja sölu í kvöld og halda áfram á morgun. Það sé því nauðsynlegt fyrir almenning að leggjast á eitt með tæma flugeldasölurnar áður en nýtt ár gengur í garð.

„Það er rosalega mikilvægt að fólk taki við sér og hjálpi okkur við að moka þessum flugeldum út," segir Haraldur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×