Innlent

Grófar líkamsárásir á Suðurlandi - kjálkabrot og bitið framan af nefi

Tilkynnt var um tvær líkamsárásir á Suðurlandi í nótt. Sú fyrri átti sér stað í húsi á Laugarvatni. Var lögregla kölluð til eftir að maður hafði ráðist á húsráðanda og tvíkjálkabrotið hann og bitið.

Árásarmaðurinn veittist síðan að þriðja manninum og beit framan af nefi hans. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi voru hinir særðu voru fluttir með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Reykjavík.

Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn en haft var uppi á honum síðar á Laugarvatni. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöðina á Selfossi þar sem hann var yfirheyrður. Honum var sleppt að lokinni skýrslutöku. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu að sögn varðstjóra á Selfossi.

Seinna líkamsárásarmálið átti sér stað í Hveragerði. Þar kom til átaka milli tveggja manna eftir dansleik. Annar þeirra hlaut þungt höfuðhögg missti hann við það nokkrar tennur. Vitað er hver var að verki en árásarmaðurinn hvarf af vettvangi áður en lögregla kom á staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×