Innlent

Enn víða rafmagnslaust - unnið að viðgerðum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Rafmagn er framleitt með varaaflsvélum fyrir Ólafsvík, Hellissand og Rif samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum.

Við skoðun í gær á Ólafsvíkurlínu, sem liggur frá Vegamótum að Ólafsvík, komu í ljós meiri skemmdir en búist var við. Unnið hefur verið að því að taka saman efni og mannskap til viðgerðar og eru viðgerðir þegar hafnar. Búist er við því að það geti tekið nokkra sólarhringa að klára viðgerðina. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að flytja auka varaafl inn til Ólafsvíkur til að auka afhendingaröryggi og anna álagi.

Rafmagn komst á sveitina í Önundarfirði síðdegis í gær. Um leið komst rafmagn á mikilvæg fjarskiptamannvirki í firðinum. Varaaflsvélar eru enn í gangi í Bolungarvík og sjá þær Hnífsdal einnig fyrir rafmagni. Varaaflsvélar eru líka enn í gangi í Súðavík, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og Bíldudal.

Ef veður og snjóalög leyfa verður í dag farið að leita að bilunum á línum Orkubúsins og Landsnets. Ef ekki verður unnt að gera við línur og þannig tengjast Mjólkárvirkjun er fyrirsjáanlegt að grípa verði til frekari skammtana eftir hádegi í dag, gamlársdag.

Búið er að gera við Barðastrandarlínu og eru allir á sunnaverðum Vestfjörðum með rafmagn frá díselrafstöðvum og vatnsaflsvirkjunum.

Enn er rafmagnslaust í Árneshreppi og reyna á viðgerð á línum í dag ef veður og snjóalög leyfa. Bilun var á Bjarnarfjarðarlínu en búist var við að viðgerð kláraðist í gærkvöldi. Á Hólmavík eru allir notendur með rafmagn frá díselrafstöðvum og Þverárvirkjun.

Í gærkvöldi var rafmagnslaust í Ísafjarðardjúpi, fyrir vestan Reykjanes, og fór viðgerðarflokkur að reyna að koma rafmagni á þar.

Á þeim stöðum þar sem enn er keyrt á varaafli er fólk beðið að spara rafmagn eins og hægt er.

Enn er ófært á milli þéttbýlisstaða á Vestfjörðum og mun Vegagerðin meta ástandið með morgninum. Nánir upplýsingar í síma 1777 eða á vef Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is

Enn eru truflanir í GSM kerfinu vegna rafmagnstruflana og eru nokkrir sendar enn úti á Vestfjörðum. Á standið skánaði til muna í gær þegar þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með starfsmenn Símans, Vodafone og Öryggisfjarskipta á nokkra staði á Vestfjörðum í þeim tilgangi að koma á fjarskiptasambandi sem hafði rofnað í rafmagnsleysinu. Óhætt er að segja að ferðin hafi heppnast vel því margir farsímasendar komust í kjölfarið í samband auk þess sem TETRA öryggisfjarskiptakerfið er nú orðið samtengt að mestu aftur.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn. Norðan 13-23 m/s, hvassast við N-ströndina. Snjókoma N-til á landinu, en skýjað með köflum S-lands. Fer að draga úr vindi og úrkomu síðdegis. Norðan 8-13 m/s seint í kvöld. Él á NA- og A-landi, lítilsháttar él NV-lands, en bjartviðri á S- og SV-landi. Frost víða 0 til 6 stig. Veðurspá gerð 31.12.2012 03:46

Athugasemd veðurfræðings. Áfram norðan hvassviðri eða jafnvel stormur fram eftir degi með snjókomu eða éljum á N-verðu landinu. Dregur mjög úr vindi og ofankomu í kvöld og í nótt. Hæglætisveður og víða bjart á Nýársdag. Sjá nánar á www.vedur.i




Fleiri fréttir

Sjá meira


×