Innlent

Krefja Eir um styrki sem þeir telja að hafi verið misnotaðir

Erla Hlynsdóttir skrifar
Hjúkrunarfélagið Eir verður krafið um endurgreiðslu styrkja.
Hjúkrunarfélagið Eir verður krafið um endurgreiðslu styrkja.
Stjórn framkvæmdastjóðs aldraðara ætlar að krefja hjúkrunarheimilið Eir um endurgreiðslu styrkja sem rökstuddur grunur er fyrir að hafi verið misnotaðir. Eir fékk um hálfan milljarð króna í styrki frá sjóðnum á síðasta áratug.

Framkvæmdastjóður aldraðra er fjármagnaður með sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á alla skattskylda Íslendinga á aldrinum 16-70 ára. Sjóðurinn heyrir undir velferðarráðuneytið og framlag úr honum telst vera ríkisframlag.

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra annast stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Nefndin fundaði fyrir helgi þar sem meðal annars málefni Eirar voru rædd, að ósk Björns Vals Gíslasonar, formanns fjárlaganefndar.

Samkvæmt lögum skal framkvæmdastjóður aldraðra stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. Styrkir úr sjóðnum skal nýta til byggingar og viðhalds húsnæðis, samkvæmt ákveðnum skilmálum. Óheimilt er að nota styrkina í annað en þeir eru veittir til.

Á fundinum kom fram að hluti styrkja sem Eir hefur tekið við, var notaður í annað en reglur segja til um. Nema þessir styrkir einhverjum milljónum króna og var samþykkt á fundinum að krefjast endurgreiðslu. Þá var einnig samþykkt að fara ítarlega yfir samskipti framkvæmdastjóðsins og Eirar, hvað varðar fjárveitingar úr sjóðnum, með það fyrir augum að upplýsa hvort fleiri styrkir hafi verið misnotaðir.

Á árunum 2000 til 2010 fékk Eir tæpar 486 milljónir króna í styrki frá sjóðnum, eða um hálfan milljarð. Eir er þar með í fimmta sæti yfir stofnanir og félög sem mesta styrki fengu á tímabilinu úr framkvæmdasjóðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×