Handbolti

Kári tryggði Wetzlar sigur á Füchse Berlin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Kristján hefur átt frábært tímabil með spútknikliði Wetzlar í þýsku úrvalsdeildinni.
Kári Kristján hefur átt frábært tímabil með spútknikliði Wetzlar í þýsku úrvalsdeildinni. Nordic Photos / Getty Images
Kári Kristján Kristjánsson átti ótrúlegan leik þegar að Wetzlar vann frábæran útivallarsigur á sterku liði Füchse Berlin, 28-27, í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Kári Kristján skoraði fjögur síðustu mörk Wetzlar, þar af sigurmarkið rúmri mínútu fyrir leikslok. Alls skoraði hann sjö mörk í leiknum.

Með sigrinum komst Wetzlar upp í þriðja sæti deildarinnar á kostnað Berlínarrefanna. Wetzlar er með nítján stig en Füchse Berlin átján. Dagur Sigurðsson er þjálfari síðarnefnda liðsins.

Óhætt er að segja að Kári Kristján hafi reynst sínu liði mikilvægur á lokasprettinum. Hann var eini leikmaður Wetzlar sem skoraði á síðustu tíu mínútum leiksins en Wetzlar hafði verið með undirtökin í leiknum allan seinni hálfleikinn.

Kári Kristján kom Wetzlar í þriggja marka forystu, 24-21, þegar tæpar þrettán mínútur voru eftir. Þá tók Dagur Sigurðsson leikhlé og Füchse Berlin náði að jafna metin, 27-27, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum.

Eftir að Kári Kristján endurheimti forystuna fyrir Wetzlar fékk Füchse Berlin boltann á ný og hafði rúma mínútu til að jafna metin. Það tókst þó ekki og gestirnir fögnuðu sætum sigri.

Kári var markahæsti maðurinn á vellinum í kvöld en Fannar Friðgeirsson bætti við tveimur mörkum fyrir Wetzlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×