Fyrir leikinn í dag var GOG búið að tryggja sér sæti í undanúrslitunum en 8-liða úrslitin eru leikin í tveimur fjögurra liða riðlum þar sem GOG var fyrir leikinn í efsta sæti með 8 stig, Holstebro í öðru sæti með 6 stig og Bjerringbro-Silkeborg í þriðja sæti með 4 stig eftir sigur á Federicia fyrr í dag.
Það var því ljóst að Holstebro dugði stig úr leiknum í dag til að tryggja sætið í undanúrslitum. Það tókst en gat varla tæpara staðið. Heimalið GOG var 17-13 yfir í hálfleik en lærisveinar Arnórs náðu að jafna í stöðunni 23-23 um miðjan síðari hálfleikinn.
Eftir það skiptust liðin á að skora en Holstebro var alltaf að elta. Þegar 40 sekúndur voru eftir kom Tobias Gröndahl GOG í 29-28 með marki úr vítakasti og Arnór Atlason tók í kjölfarið leikhlé til að setja upp lokasókn fyrir sitt lið. Það heppnaðist fullkomlega, Edwin Aspenbäck jafnaði í 29-29 þegar níu sekúndur voru eftir og það urðu lokatölur leiksins.
Holstebro fer því í undanúrslitin ásamt liði GOG en ein umferð er eftir af riðlakeppninni.