Gréta Hergils sópransöngkona gefur út hljóðdiskinn Ave María. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur tónlistarmaður helgar hinni heilögu guðsmóður sinn fyrsta hljóðdisk.
Lögin eru samin allt frá 16. öld til dagsins í dag og er fjölbreytileikinn eftir því. Þar er að finna Ave Maríur sem eru bæði þekktar og lítt þekktar. Á disknum má m.a. finna Ave Maria eftir Jakob Arcadelt sem talið er vera elsta samda tónverkið við bænina um hina heilögu Maríu.
Útgáfutónleikar verða haldnir í Bústaðakirkju annað kvöld, þriðjudaginn 27. nóvember kl 20:00. Með henni verða Jónas Þórir á píanó, Matthías Stefánsson fiðluleikari auk kunnra söngvara. Aðgangur er ókeypis
Á disknum eru ellefu sönglög sem samin eru undir nafninu Ave María m.a. eftir S. Kaldalóns, Bach/Gounod, F. Schubert, P. Mascagni, V.Vavilov, Jónas Þórir og Máríukvæði eftir Atla Heimi Sveinsson, ásamt fleirum.
Gréta hefur sungið víða opinberlega undanfarin ár t.d. í Íslensku óperunni, síðast með hlutverk í Il Trovadore, Frostrósum klassík, með Tenórunum þremur, á skemmtunum ýmis konar og við kirkjulegar athafnir.
Þetta er fyrsti hljómdiskur Grétu en áður hefur hún sungið inn á disk með öðrum listamönnum og má þar nefna disk Jóhanns Friðgeirs, Sacred Arias.
