Viðskipti innlent

Seðlabankinn dregur úr hagvaxtarspá sinni

Seðlabankinn hefur dregið úr hagvaxtarspá sinni fyrir árið í ár og gerir nú ráð fyrir að hagvöxturinn verði 2,5%. Í fyrri spá bankans var gert ráð fyrir rúmlega 3% hagvexti á árinu.

Fjallað er um málið í Peningamálum bankans sem komu út í morgun samhliða ákvörðuninni um stýrivexti. Í Peningamálum segir að alþjóðlegar hagvaxtarhorfur hafa heldur versnað og óvissa aukist frá útgáfu Peningamala í ágúst. Horfur um viðskiptakjör í ár og útflutningsvöxt á spátímanum í heild hafa því versnað. Gengi krónunnar hefur einnig lækkað nokkuð frá því í ágúst eftir að hafa hækkað síðan í apríl sl.

Endurskoðaðar tölur Hagstofu Íslands benda til þess að hagvöxtur í fyrra hafi verið minni en áður var talið og að efnahagsbatinn á fyrri hluta þessa árs hafi verið veikari en reiknað var með í ágúst.

„Í endurskoðaðri spá bankans er því gert ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði um 2,5% sem er um ½ prósentu minni hagvöxtur en spáð var í ágúst. Meginskýringin liggur í meiri samdrætti samneyslu en áður hafði verið spáð. Hins vegar er gert ráð fyrir meiri hagvexti á næsta ári en spáð var í ágúst eða um 2,9% og að hagvöxtur á spátímanum verði að meðaltali rétt yfir 3%, sem er í takt við langtímameðalhagvöxt," segir í Peningamálunum.

„Samkvæmt spánni mun landsframleiðslan ná hágildi sínu frá því fyrir fjármálakreppuna á seinni hluta ársins 2014 og verða svipuð í lok spátímans árið 2015 og gert var ráð fyrir í ágúst. Nýjustu vísbendingar gefa til kynna hægari bata á vinnumarkaði en áður var gengið út frá, þótt atvinnuleysi haldi áfram að minnka.

Störfum hefur þó fjölgað og verið meginástæða minnkandi atvinnuleysis. Áfram er gert ráð fyrir hægfara bata á vinnumarkaði með fjölgun heildarvinnustunda og minnkandi atvinnuleysi. Verðbólga hefur reynst minni en spáð var í ágúst en horfur á spátímanum eru hins vegar taldar svipaðar og þá. Þar vegast annars vegar á áhrif minni verðbólgu við upphaf spátímans og meiri slaki í þjóðarbúinu og hins vegar áhrif lægra gengis krónunnar og meiri hækkana óbeinna skatta í byrjun næsta árs en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Samkvæmt spánni næst verðbólgumarkmiðið þó heldur fyrr en í ágústspánni. Mikil óvissa er um gengis- og verðbólguhorfur og styrk og varanleika innlends efnahagsbata, sérstaklega í ljósi viðsjárverðra alþjóðahorfa."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×