Innlent

Ætlaði á Vog en endaði í gæsluvarðhaldi - og fær bætur fyrir

Þessi mynd var tekin þegar einn af mönnunum fjórum voru leiddir fyrir dómara vegna gæsluvarðhaldsúrskurðar.
Þessi mynd var tekin þegar einn af mönnunum fjórum voru leiddir fyrir dómara vegna gæsluvarðhaldsúrskurðar.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun íslenska ríkið til þess að greiða karlmanni rúmlega tvær milljónir króna vegna gæsluvarðhalds sem hann þurfti að sæta árið 2011 í tengslum við skotárás sem átti sér stað á aðfangadegi árið 2010.

Landsmönnum var verulega brugðið við fregnirnar af árásinni en fjórir menn voru handteknir fyrir að skjóta með haglabyssu á heimili ungrar fjölskyldu, en meðal annars voru börn í íbúðinni. Fjölskyldan komst undan bakdyramegin og voru mennirnir fjórir handteknir nokkru síðar.

Þrír voru að lokum dæmdir fyrir að hafa skotið á hurðina en sá sem vann skaðabótamálið nú, var aftur á móti sýknaður, þar sem hann átti enga aðild að árásinni.

Raunar virðist maðurinn hafa flækst í atburðarrásina með ótrúlegum hætti. Þannig ætlaði hann á Vog í vímuefnameðferð sama morgunn, á aðfangadegi, en atvik æxluðust þannig að hann fór ekki. Hann hringdi þá í félaga sinn, sem bauð honum í heimsókn þar sem hann var fyrir ásamt bróður sínum og þriðja manni. Þriðji maðurinn kom og sótti þann óheppna, en kom við á heimili fjölskyldunnar þar sem skotárásin átti sér síðar stað.

Þeim samskiptum lyktaði með því að þriðji maðurinn var sleginn af húsráðanda, sem varð til þess að þeir fóru til bræðranna, sóttu skotvopn, og héldu aftur að heimilinu, nú með bræðrunum. Sá sem vildi komast í meðferðina segist hafa vitað af skotvopninu í bílnum, og að hræða hafi átt húsráðanda með því, en hann neitar að hafa vitað til þess að vopnið væri hlaðið.

Þegar að heimilinu var komið skaut einn af þremenningunum á húsið. Þá hljóp maðurinn samstundis í burtu. Félagi hans elti hann uppi og náði að stöðva hann. Hinir forðuðu sér af vettvangi. Lögreglan kom skömmu síðar og handtók mennina tvo þar sem þeir voru nærri húsinu. síðar voru bræðurnir handteknir. Allir voru þeir úrskurðaði í gæsluvarðhald fram yfir áramótin.

Dómari Héraðsdóms Reykjavíkur segir að sú tilhögun hafi verið lögmæt og skiljanleg. Maðurinn fékk því ekki bætur greiddar fyrir gæsluvarðhaldið sem hann sætti fyrstu vikuna, enda gaf hann vitlausan framburð í yfirheyrslum. Skömmu síðar breytti maðurinn framburði sínum og sagði lögreglu sannleikann um aðild sína að árásinni, sem var afar takmörkuð, raunar svo að hann var að lokum sýknaður fyrir hlut sinn í málinu.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að þáttur mannsins hafi að mestu verið upplýstur 4. janúar 2011, þegar ákveðið var að framlengja gæsluvarðhald hans.

Þurfti maðurinn engu að síður að dúsa í gæsluvarðhaldi í um þrjá mánuði þar sem það var ítrekað framlengt. Fékk maðurinn því 1,4 milljón í miskabætur fyrir þann tíma sem hann sætti slíkri þvingun.

Þá er ríkinu einnig gert að bæta honum fjártjón sem hann varð fyrir vegna vinnumissis, en maðurinn var í fullri vinnu þegar hann endaði í gæsluvarðhaldi. Sú upphæð nemur 730 þúsund krónum. Alls fær maðurinn því 2,1 milljón í bætur frá ríkinu. Hann fékk einnig gjafsókn, þannig ríkið stendur straum af þeim kostnaði einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×