Innlent

Fjórtán ára stelpa sendir sjúkum börnum hárið sitt

BBI skrifar
Helga Guðrún með fléttuna í höndunum.
Helga Guðrún með fléttuna í höndunum.
Hin fjórtán ára gamla Helga Guðrún Þorbjörnsdóttir ákvað í vikunni að klippa af sér hárið og senda það til útlanda svo hægt sé að gera úr því hárkollu fyrir börn sem hafa misst hárið vegna lyfjameðferðar.

„Mig hafði alltaf langað til að klippa mig stutthærða en ég vissi ekki alveg hvort ég ætti að gera það. Svo fattaði ég að ég gæti gefið hárið til útlanda," segir Helga.

Það var fyrirtækið Locks of Love (ísl. Ástarlokkar) sem Helga heyrði af og reið baggamuninn. Fyrirtækið er staðsett í Bandaríkjunum en tekur við hárframlögum, þ.e. mannahári, héðan og þaðan úr heiminum í því skyni að búa til hárkollur fyrir börn sem hafa þurft að gangast undir lyfjameðferð, t.d. vegna krabbameins.

Þegar Helga heyrði af fyrirbærinu ákvað hún að slá til, gerast stutthærð og senda hárið til útlanda til að leggja þurfandi börnum lið. Og það gerði hún á þriðjudaginn var.

„Ég vissi að krabbameinssjúklingar hafa meiri not fyrir hárið en ég," segir hún og sér alls ekki eftir klippingunni. „Það er bara gott að gefa af mér. Og svo er plús að þetta er mikið þægilegra,."

Að eigin sögn hefur hún fengið mjög góðar undirtektir frá vinum og fjölskyldu. „Já, það er alveg ótrúlega mikið af facebook vinum mínum sem eru búnir að læka myndina mína og segja hvað þetta er fallegt af mér og svona," segir Helga.

Helga hefur aldrei heyrt um fólk sem sendir hárið á sér til útlanda. „Nei ég hef eiginlega ekki heyrt um neinn," segir hún en hugmyndin kviknaði hjá henni sjálfri.

Enn hefur hún ekki sent hárið út en það mun hún gera á næstu dögum.

Helga fyrir klippinguna og eftir hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×