Innlent

Forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu teknar til umræðu að nýju

BBI skrifar
Íslenskur sérsveitarmaður.
Íslenskur sérsveitarmaður. Mynd/Anton Brink
Nokkrir þingmenn lögðu fram tillögu til þingsályktunar um að fela innanríkisráðherra að vinna frumvarp sem veiti lögreglunni hérlendis heimildir til að beita forvirkum rannsóknarheimildum á föstudaginn var. Slíkar heimildir eru taldar nauðsynlegar í baráttu lögreglunnar við skipulagða glæpastarfsemi. Allsherjar- og menntamálanefnd sendir tillöguna til umsagnar í dag.

Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, telur að mögulegt verði að afgreiða málið hratt út úr nefndinni. Sama þingsályktunartillaga var flutt á síðasta þingi og þá mælti nefndin með að hún yrði samþykkt. Nokkrir nefndarmenn sátu hjá en aðrir mæltu samróma með samþykkinu.

Skiptar skoðanir hafa verið um hvort lögreglan eigi að fá forvirkar rannsóknarheimildir hér á landi. Tveir fyrrverandi dómsmálaráðherrar hafa fært rök að því að rétt sé að veita lögreglu þessar heimildir. Annars vegar vann Björn Bjarnason talsverða undirbúningsvinnu við gerð lagafrumvarps um forvirkar rannsóknarheimildir. Ragna Árnadóttir sem tók við embættinu af honum var einnig þeirrar skoðunar að rétt væri að fela lögreglu slíkar heimildir.

Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar, með Siv Friðleifsdóttur í forsvari, telja nauðsynlegt að lögreglan hér hafi sambærilegar heimildir við lögreglulið í Evrópu. Með því móti sé líklegra að hægt sé að hemja skipulagða glæpastarfsemi. „Að mati flutningsmanna er ábyrgðarlaust að veita lögreglunni ekki heimildir til forvirkra rannsókna," segir í greinargerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×