Innlent

Glæpir í Héðinsfirði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnar Jónasson rithöfundur.
Ragnar Jónasson rithöfundur.
Eyðifjörðurinn Héðinsfjörður, mitt á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, er sögusvið fjórðu glæpasögu Ragnars Jónassonar. Bókin hefur hlotið nafnið Rof og kemur út næsta fimmtudag, en það vakti athygli fyrr í mánuðinum að bókin kom fyrst út í forsölu sem rafbók og hljóðbók. Útgáfunni verður fagnað með útgáfuteiti í Reykjavík annars vegar og í Héðinsfirði hins vegar.

Árið 1955 flytja tvenn ung hjón í þennan afskekkta eyðifjörð og dvölin fær snöggan endi þegar önnur kvennanna deyr með dularfullum hætti - og hálfri öld síðar finnst gömul ljósmynd sem bendir til þess að hjónin hafi ekki verið ein í firðinum. Héðinsfjörður fór raunar í eyði árið 1951 en Ragnar tekur sér það skáldaleyfi að spinna glæpasögu í kringum þessa ímynduðu síðustu ábúendur í firðinum. Afi Ragnars og nafni, Þ. Ragnar Jónasson fræðimaður á Siglufirði, skrifaði meðal annars um sögu Héðinsfjarðar í ritröð sinni Úr Siglufjarðarbyggðum og Ragnar nýtti sér þær bækur til þess að gefa lesendum sem besta innsýn inn í lífið í þessum afskekkta firði á árum áður, en bókin er tileinkuð minningu afa hans og ömmu, Þ. Ragnars og Guðrúnar Reykdal.

Spennusaga Ragnars, Snjóblinda, kom nú á dögunum út í kiljuútgáfu hjá Fischer útgáfuforlaginu í Þýskalandi, en bókin kom út í innbundinni útgáfu þar í landi fyrir ári síðan. Fischer hefur jafnframt tryggt sér réttinn á glæpasögu Ragnars, Myrknætti, sem kom út í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×