Innlent

Þingmenn fóru á Hraunið

BBI skrifar
Nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis voru uppnumdir eftir heimsókn á Litla Hraun í morgun að sögn formanns nefndarinnar. Nefndarmenn fengu sérstaka kynningu á því hvernig starfsfólk Litla Hrauns hefur varið 50 milljóna króna fjárframlagi sem hugsað var til að efla öryggisþætti fangelsisins.

„Það er alveg ævintýralegt hvað þau hafa gert mikið fyrir litla fjármuni," segir Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, og nefnir til að mynda móttökuhús, leitarhlið og girðingu í kringum fangelsið.

„Svo voru þau að sýna okkur hvað þau hefðu getað gert fyrir tvö slík framlög til viðbótar næstu ár. Svo að nú stendur upp á okkur að tryggja að þau fái úr næstu og þarnæstu fjárlögum," segir Björgvin og ætlar að beita sér sérstaklega fyrir því að það takist.

Björgin segir að með framlögunum sem óskað verður næstu tvö ár verði bæði komið í veg fyrir smygl inn í fangelsið og gert nær ómögulegt að brjótast þaðan út „sem er tiltölulega auðvelt í dag".

Nefndarmennirnir skoðuðu einnig aðstöðuna og starfsemi fangelsisins. „Við vorum til dæmis lóðsaðir um meðferðarganginn. Tilkoma hans fyrir fjórum árum gjörbreytti fangelsinu," segir Björgvin og telur að hann hafi stuðlað að mikilli betrun. „Þetta starf er að skila miklum mannbótum og miklum árangri og meðferðargangurinn hefur haft ævintýraleg áhrif."

Björgvin segir að nefndarmenn hafi verið uppnumdir eftir heimsóknina enda þekki þeir starfsemina misvel og hafa margir hverjir ekki heimsótt fangelsið oft áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×