Innlent

Göngum nú öll til góðs

Landssöfnun Rauða krossins, Göngum til góðs, hófst í morgun klukkan tíu og söfnunarstöðvar á nærri áttatíu stöðum á landinu verða opnar til klukkan sex í dag.

Veðrið ætti ekki að setja strik í reikninginn en víðast hvar er hægviðri og úrkomulítið. Rauði krossinn stefnir á að virkja þrjúþúsund sjálfboðaliða til að heimsækja heimili á Íslandi í dag og bjóða fólki að styrkja samtökin til að hjálpa börnum í neyð víðsvegar um heiminn.

Þeir sem vilja ganga til góðs geta séð lista yfir söfnunarstöðvar til dæmis í Fréttablaðinu og á vef Rauða krossins. Fólk er hvatt til að mæta á söfnunarstöð sem þeim hentar og gefa eina og hálfa klukkustund af tíma sínum til góðs málefnis.

Þetta er í sjöunda sinn sem Rauði krossinn býður Íslendingum að ganga til góðs en söfnunin fer fram annað hvert ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×