Innlent

Flugferðum mun fækka um allt að 40%

GRV skrifar
Frá kynningu skýrslunnar í dag.
Frá kynningu skýrslunnar í dag.
Flugferðum innanlands fækkar, kostnaður samfélagsins eykst og fjölbreytni í menningarlífi landsins verður einhæfara ef miðstöð innanlandsflugs verður flutt frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið KPMG hefur unnið fyrir sex sveitarfélög á landsbyggðinni. Í skýrslunni er aðeins horft til tveggja kosta, að innanlandsflugið verði áfram í Reykjavík eða að starfsemin flytjist til Keflavíkur.

Skýrsluhöfundar segja að fækkun flugferða nemi allt að fjörutíu prósentum á einstökum flugferðum og að flugferðum á þessum leiðum fækki úr þrjátíu og sjö í átján á dag. Í skýrslunni er því einnig fram að við flutninginn muni flug til Ísafjarðar, Hornafjarðar og Vestmannaeyja leggjast af í núverandi mynd og að kostnaður við ríkisstyrkt flug aukist vegna fækkunar farþega.

Hvað varðar ferðakostnað landsmanna mun hann samkvæmt skýrslunni aukast fyrir íbúa landsbyggðarinnar um sex til sjö milljarða á ári og þá mun kostnaður við sjúkraflug aukast og öryggi sjúklinga minnka.

Flutningur flugvallarins myndi einnig kalla á endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi stjórnsýslu landsins sem er að mestu leyti staðsett í Reykjavík. Hana þurfi að gera aðgengilegri með skipulagðri uppbyggingu á landsbyggðinni.

Í skýrslunni er einnig lagt mat á áhrif flutningsins á menningu og skólastarf og sagt að fjölbreytni í menningarlífi dragist saman, erfiiðara verði að standa undir metnaðarfullu og skapandi menningarlífi á landsbyggðinni án góðra samgangna. Að auki munu starfskilyrði háskóla og annarra menntastofnana á landsbyggðinni verða erfiðari sem og uppbygging á frekara háskólastarfi.

Hvað atvinnulífið varðar er fullyrt í skýrslunni að það verði einhæfara enda treysti stór landsbyggðarfyrirtæki mikið á flug.

Að lokum segja skýrsluhöfundar að landsbyggðin í heild sinni verði afskekktari þegar innanlandsflugið dregst saman enda sé gott aðgengi að menningu. menntun og þjónustu einn af þeim meginþáttum sem áhrif hafi á búsetuval fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×