Innlent

Dýpsta ljósmynd veraldar opinberuð

eXtreme Deep Field.
eXtreme Deep Field. mynd/NASA
Stjörnufræðingar NASA hafa betrumbætt dýpstu ljósmynd sem til er af alheiminum. Nýja myndin nefnist eXtreme Deep Field en hún er byggð á hinni víðfrægu Ultra Deep Field sem Hubble sjónaukinn tók á árunum 2003 og 2004.

Ultra Deep Field var dýpsta ljósmynd sem nokkurn tíma hafði verið tekin af alheiminum. Hubble safnaði daufu ljósi í margar klukkustundir og smám saman birtust þúsundir vetrarbrauta, nær og fjár. Myndin var af agnarsmáu svæði í stjörnumerkinu Ofninn (lat. Fornax).

Nýja myndin, eXtreme Deep Field, er enn næmari. Hún geymir um 5.500 vetrarbrautir. Birtustig daufustu vetrarbrautanna er einn-tíumilljarðast af því sem mannsaugað greinir.

Stórglæsilegar þyrilvetrarbrautir, áþekkar vetrarbrautinni okkar og Andrómedu að lögun sjást á myndinni sem og stórar og óskýrar rauðar vetrarbrautir, þar sem stjörnur myndast ekki lengur.

Örsmáar, daufar og fjarlægar vetrarbrautir dreifast yfir sviðið, líkt og græðlingar vetrarbrauta okkar daga. Saga vetrarbrautanna, allt frá þeim fyrstu - til þeirra sem við sjáum nú, stendur skrifuð í myndina.

Hubble starði á lítið svæði á suðurhluta himins í nokkrum lotum síðasta áratuginn. Heildarlýsingartími myndarinnar er um 2 milljónir sekúndna.

Áhugasamir geta nálgast allar upplýsingar um Hubble, eXtreme Deep Field og annan fróðleik um alheiminn á Stjörnufræðivefnum.

Þá er einnig hægt að nálgast stærri útgáfu af eXtreme Deep Field hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×