Innlent

Hanna Birna stefnir á fyrsta sæti í Reykjavík

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir komandi þingkosningar. Þetta staðfestir hún í samtali við Vísi.

Fréttatíminn fullyrti í dag að Hanna Birna hefði einnig hug á því að gefa kost á sér til varaformennsku flokksins á næsta landsfundi. Hanna Birna segist hins vegar engar ákvarðanir hafa tekið um framboð á þeim fundi. „Ólöf Nordal er varaformaður flokksins fram að næsta landsfundi. Ég mun láta það ráðast, meðal annars af niðurstöðu prófkjörsins, þegar þar að kemur," segir Hanna Birna.

Því er ljóst að Hanna Birna mun beita starfskröftum sínum á nýjum vettangi á næstunni. „Ég er í stjórnmálum til að gera gagn og vinna fyrir almenning. Í borgarstjórn hef ég lagt áherslu á breytingar og ný vinnubrögð. Ég mun vinna með sama hætti í landsmálum enda er stærsta verkefni stjórnmálanna í dag að skapa hér samfélag þar sem fólki í landinu hefur fleiri tækifæri til betra lífs. Í þágu þess langar mig til að beita mér," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×