Erlent

Segja að myndband sé til af Harry prins nöktum í Las Vegas

Vandræðum bresku konungsfjölskyldunnar vegna drykkjuláta Harry prins á hóteli í Las Vegas virðist hvergi nærri lokið.

Margir netmiðlar í Bandaríkjunum hafa greint frá því að til sé myndbandsupptaka af Harry prins kvöldið sem hann tók þátt í svokölluðum nektarbilljard á lúxushótelherbergi sínu í síðustu viku.

Símamyndir af prinsinum kviknöktum frá þessu kvöldi fóru eins og logi um akur á netinu fjölskyldu hans til mikillar hrellingar. Um tíma tókst konungsfjölskyldunni að koma í veg fyrir að myndir þessar yrðu birtar í breskum fjölmiðlum. Slúðurblaðið The Sun reið svo á vaðið og birti myndir af hinum nakta prinsi í félagsskap álíka léttklæddra kvenna.

Myndbandið af því sem gerðist á hótelherbergi prinsins mun þó vera mun alvarlegra vandamál fyrir bresku konungsfjölskylduna. Þar mun prinsinn ganga enn lengra í félagsskap hinna nöktu kvenna en myndirnar gefa í skyn.

Þeir sem hafa myndbandið undir höndum eru sagðir fara sér mjög varlega enda mun fjöldi af mjög valdamiklu fólki vera að reyna að koma í veg fyrir birtingu þess. Þó hafa þeim borist fyrirspurnir um hve mikið það muni kosta að kaupa Þetta myndband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×