Erlent

Lést í aftursæti á lögreglubíl

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglumenn í Bandaríkjunum rannsaka nú hvernig stendur á því að 21 árs gamall karlmaður lést í aftursæti lögreglubíls eftir að hann var handtekinn í Arkansas.

Maðurinn var á ferð í sendibíl þann 28. júlí síðastliðinn þegar lögreglumenn stöðvuðu bílinn. Lögreglumennirnir áttuðu sig á því að handtökuskipun hafði verið gefin út á hendur manninum vegna fíkniefnamáls og ákváðu að handtaka hann.

Í lögregluskýrslum kemur fram að tvisvar var leitað á manninum, hanni hafi síðan verið handjárnaður og vísað í baksæti á lögreglubíl. Andartaki síðar hafi hann fundist alblóðugur í bílnum. Hann hafi verið með byssu falda innanklæða, sem ekki hafi fundist þegar leitað var á honum, og hann hafi síðan notað byssuna til að skjóta sjálfan sig í hausinn.

Um þetta efast almenningur í borginni Jonesbro í Arkansas, þar sem atvikið gerðist. Sumir telja jafnvel að alls ekki hafi verið um sjálfsvíg að ræða og því hefur lögreglan ákveðið að rannsaka málið í þaula.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×