Erlent

Ólympíuleikunum lýkur með stærsta teiti allra tíma

Lokaathöfn Ólympíuleikanna fer fram á morgun. Líkt og með setningarathöfn leikanna hvílir mikil leynd yfir dagskránni á morgun. Stephen Daldry, leikstjóri lokaathafnarinnar, lofar ótrúlegri sýningu og besta teiti fyrr og síðar, eins og hann orðaði það.

Athöfnin mun taka um þrjár klukkustundir og munu þúsundir sjálfboðaliða taka þátt. Hápunktinum verður náð þegar sinfóníuhljómsveit Lundúna stígur á svið ásamt fjölmörgum þekktum tónlistarmönnum. Orðrómur á kreiki um að dívurnar í Spice Girls muni koma fram og flytja nokkur lög. Þá er talið að Adele, The Who og Elton John muni einnig stíga á stokk.

En það er vart hægt að fagna tónlistarsögu Bretlands án þess að minnast á grínhópinn Monty Python. Líklegt þykir að grínistinn Eric Idle, liðsmaður Monthy Python, muni stíga á svið og flytja smellinn Always Look on the Bright Side of Life.

Lokaathöfn Ólympíuleikanna hefst klukkan 20 að íslenskum tíma.

Hægt er að sjá Monty Python taka Always Look on the Bright Side of Life hér fyrir ofan. Myndbrotið er úr kvikmyndinni Life of Brian frá árinu 1979.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×