Erlent

Fíkniefnaverksmiðja neðanjarðar

Ítalska lögreglan gerði 340 kíló af kannabis upptæk á yfirgefinni neðanjarðarlestarstöð í borginni Róm í dag. Stöðin var byggð á fjórða áratug síðustu aldar af einræðisherranum Mussolini.

Út frá lestarstöðinni liggja 800 metra löng göng sem voru notuð fyrir neðanjarðarlestir. Við inngang ganganna fann lögreglan fíkniefnin. Talið er að efnin sem þar fundust séu um 2,4 milljóna punda virði, tæplega 500 milljónir íslenskra króna.

Auk fíkniefnanna voru þar öll tæki og tól sem notuð eru til ræktunar. Þetta er talið vera einn mesti fíkniefnafundurinn í sögu ítölsku lögreglunnar. Maður á sextugsaldri hefur verið handtekinn grunaður um aðild að málinu.

Ítalska dagblaðið Corriere Della Sera segir að starfsmenn í verksmiðjunni hafi unnið á vöktum og skipt um föt áður en þeir fóru út úr göngunum. Ekki er útilokað að ítalska mafían Camorra hafi staðið að framleiðslunni.

Myndband ítölsku lögreglunnar af verksmiðjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×