Erlent

Segja sýrlensk stjórnvöld bera ábyrgð á blóðbaðinu í Houla

Frá útför í Sýrlandi fyrr á árinu.
Frá útför í Sýrlandi fyrr á árinu.
Rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hafa gefið út skýrslu þar sem fram kemur að sýrlensk stjórnvöld beri ábyrgð á blóðbaðinu í Houla fyrr í sumar. Fréttavefur BBC greinir frá því að rannsakendur hafi rætt við yfir 700 manns, meðal annars hermenn sem hafa flúið land og óbreytta borgara.

Árásin átti sér stað í maí síðastliðnum en þá virðast hermenn hafa ráðist á óbreytta borgara í Houla og drepið 108 einstaklinga. Þar af 49 börn.

Skýrslan rannsakar mannréttindabrot í landinu á tímabilinu febrúar til júlí. Þá kemur fram í skýrslunni að andspyrnan hafi einnig orðið uppvís af stríðsglæpum en brot þeirra séu ekki jafn umfangsmikil og brot stjórnvalda í Sýrlandi virðast vera.

Blóðug átök hafa verið í Sýrlandi síðan í mars síðastliðnum. Síðast í dag varð sprenging nærri höfuðstöðvum stjórnvalda í Damaskus. Minnsta kosti þrír slösuðust í sprengingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×