Erlent

Óttast miltisbrandsfaraldur meðal heróínfíkla á Norðurlöndum

Heilbrigðisyfirvöld í Danmörku og Noregi óttast nú að miltisbrandsfaraldur sé í uppsiglingu meðal sprautufíkla, og þá einkum heróínneytenda, í norðurhluta Evrópu.

Þegar hafa fundist tveir einstaklingar í Kaupmannahöfn sem reyndust vera smitaðir af miltisbrandi en þetta er í fyrsta sinn sem þessi lífshættulega baktería greinist í Danmörku á síðustu 50 árum.

Í umfjöllun Jyllands Posten um málið segir að norsk heilbrigðisyfirvöld óttist að miltisbrandsfaraldur sé í uppsiglingu meðal heróínfíkla í Osló. Talið er að bakterían hafi borist til Evrópu með heróíni frá Asíu. Arne Scheel Thomsen yfirlæknir í danska heilbrigðisráðuneytinu segir að þeir sem noti heróín daglega séu í mestri hættu á að sýkjast af miltisbrandi.

Í Þýskalandi hafa greinst þrjú tilfelli af miltisbrandi og þar hefur einn látist vegna sýkingarinnar. Einnig er vitað um einstök tilfelli í Frakklandi og Skotlandi.

Miltisbrandur getur borist í fólk með gróum í gegnum öndunarfærin en smitast síðan milli manna með líkamsvessum og er bráðdrepandi sjúkdómur. Hann hefur á sér mjög illt orðspor því herir margra þjóða hafa reynt að þróa bakteríuna sem sýklavopn á undanförnum áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×