Erlent

Árásarmaðurinn fyrrum hermaður og kynþáttarhatari

Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. mynd/afp
Maðurinn sem skaut sex til bana í musteri síka í borginni Oak Creek í Wisconsins í Bandaríkjunum í gær var fyrrum hermaður og kynþáttarhatari.

Þetta hefur fréttastofan CNN eftir lögreglumanni sem vinnur að rannsókn málsins en nafn hans hefur ekki verið gert opinbert. Maðurinn sjálfur féll í skotbardaga við lögreglu fyrir utan musterið en lögreglumaður særðist lífshættulega í þeim átökunum og þrír safnaðarmeðlimir eru lífshættu á sjúkrahúsi. Fréttir af árásinni voru óljósar í upphafi en um tíma var talið að fleiri hefðu staðið að skotárásinni en svo virðist ekki vera. Þó er talið að hann hafi notið aðstoðar við árásina á einhverjum tímapunkti.

Sjónarvottar að árásinni sögðu árásarmanninn vera sköllóttan, klæddan í hvítan stuttermabol, í svörtum gallabuxum og með húðflúr á hendinni sem á stóð 9/11 - sem vísar til hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september árið 2001. Sú lýsing á honum hafi gefið lögreglumönnum vísbendingu um að um einhverskonar hatursglæp var að ræða.

Barack Obama bandaríkjaforseti fyrirskipaði Alríkislögreglunni að aðstoða lögregluna í Wisconsin við rannsókn málsins og í yfirlýsingu sagði hann skotárásina vera harmleik og að Síkar væru hluti af bræðralagi bandarísku þjóðarinnar.

Um sjö hundruð þúsund síkar búa í Bandaríkjunum, flestir af Indverskum uppruna. Hægt er að þekkja menn innan trúarsafnaðarins á skeggi þeirra og túrbönum. Þeim er því oft ruglað saman við múslima en talið er að veist hafi verið að meðlimum safnaðarins um 700 sinnum í Bandaríkjunum frá 11. september árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×