Erlent

Þéttholda piltur vekur aðdáun eftir auglýsingu

Nýjasta auglýsing Nike hefur vakið mikla athygli síðustu daga. Þar má sjá þéttholda ungan pilt sem skokkar niður afskekktan vegarkafla.

Rúmlega milljón manns hafa horft á myndbandið frá því að það birtist á vefsíðunni YouTube fyrr í þessum mánuði.

Auglýsingin er hluti af herferð Nike sem skipulögð var í kringum Ólympíuleikana í Lundúnum. Meginstef auglýsingarinnar er sú hugmynd að hver og einn geti náð stórkostlegum árangri. Að erfðir eða meðfæddir hæfileikar stuðli ekki að góðum árangri, heldur æfing, einbeitni og metnaður.

Pilturinn í auglýsingunni hefur lýst tökunum sem mikilli þrekraun. Hann hefur nú ákveðið að snúa blaðinu við og ætlar að koma sér í form.

Auglýsingin hefur fengið misjöfn viðbrögð. Sumir halda því fram að hún sé yfirlætisleg og sé niðrandi fyrir piltinn. Aðrir fagna aftur á móti hugrekki hans.

Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×