Erlent

Blackwater semur um sekt vegna vopnasölu

Liðsmenn Academi LLC, áður Blackwater, í Írak árið 2007.
Liðsmenn Academi LLC, áður Blackwater, í Írak árið 2007. mynd/AFP
Dómsátt hefur náðst í máli öryggisfyrirtækisins Academi LLC, áður þekkt sem Blackwater, gegn ákæruvaldinu í Bandaríkjunum. Fyrirtækið var ákært fyrir að hafa selt hergögn til erlendra ríkisstjórna ásamt því að hafa þjálfað hersveitir þeirra án heimildar yfirvalda í Bandaríkjunum.

Academi LLC hefur samþykkt að greiða 7.5 milljónir dollara í sekt, eða það sem nemur tæpum 900 milljónum íslenskra króna.

Brotin áttu sér stað á árunum 2005 til 2008. Þau taka til sölu á gervihnattasímum og öðrum tækjabúnaði til yfirvalda í Súdan. Þá var fyrirtækið einnig ákært fyrir að hafa þjálfað erlenda málaliða og hermenn, þar á meðal í Kanada.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fyrirtækið kemst í kast við lögin. Fyrir tveimur árum greiddi Blackwater, sem einnig hefur gengið undir nafninu Xe Services LLC, 42 milljóna dollara sekt í kjölfar dómsáttar. Ákæruatriðin voru þá af sama meiði og nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×