Erlent

Bandaríkjamenn aðstoða við hreinsunarstarf í Víetnam

Eitrið getur haft skaðleg áhrif á fólk og valdið fæðingargöllum.
Eitrið getur haft skaðleg áhrif á fólk og valdið fæðingargöllum. mynd/AP
Fimmtíu árum eftir að bandarískar herþotur létu hið alræmda plöntueitur Agent Orange rigna yfir skógarþykknið í Víetnam hafa yfirvöld í Bandaríkjunum ákveðið að beita sér í hreinsun svæðisins. Eftir að eitrið var notað myndaðist mikið díoxín en það er aukaafurð laufeyðirsins.

Erindrekar frá Bandaríkjunum tilkynntu um hreinsunarátakið við hátíðlega athöfn á herstöðinni í Danang fyrr í vikunni.

Síðustu hálfa öld hefur díoxín seitlað ofan í jarðveginn í Víetnam og mengað vatnsbirgðir landsins. Lengi vel hefur verið vitað að efnið getur valdið fæðingargöllum og öðrum fötlunum. Frá því að stríðinu í Víetnam lauk fyrir hartnær fjórum áratugum hefur notkun efnisins og afleiðingar þess orsakað mikla gremju milli landanna.

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ekki beitt sér að ráði í málinu fyrr en nú. Árið 2007 var Víetnömum heitið 60 milljónum dollara af hálfu Bandaríkjanna en peningana átti að nota til að hreinsa jarðveg landsins.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Víetnam á dögunum. Þar sagði hún að þjóðirnar ættu að horfast í augu við fortíðina og vinna saman að því að gera upp afleiðingar stríðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×