Erlent

Lögreglan fær ekki upplýsingar frá Facebook

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Forsvarsmenn Facebook neita að veita lögreglunni í Osló aðgang að facebooksvæði Sigrid Giskegjerde Schjetne, norskrar sextán ára stúlku, sem saknað hefur verið frá því á sunnudag. Stúlkan var stödd skammt frá heimili sínu þegar hún hvarf. Síðustu ummerki um hana er sms sem hún skrifaði um helgina þar sem hún segir „tjilla heima".

Hanne Kristin Rohde, rannsóknarlögreglumaður, sagði á blaðamannafundi í dag að Facebook hefði synjað lögreglunni um aðgang að fésbókarsvæðinu hennar. Það þýðir að það muni taka hana lengri tíma að komast inn á svæðið hennar og sækja upplýsingar sem gætu nýst við rannsókn málsins.

Það virðist vera óumdeilt að hvarf Sigrid tengist einhverju saknæmu athæfi. Norska blaðið Aftenposten segir að lögreglunni hafi borist 800 vísbendingar sem hún skoðar nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×