Erlent

Sprengjum rignir yfir Damaskus og Aleppo

Uppreisnarhermenn í Aleppo, stærstu borg Sýrlands, í dag.
Uppreisnarhermenn í Aleppo, stærstu borg Sýrlands, í dag. mynd/AFP
Yfirvöld í Sýrlandi reyna nú eftir mesta megni að koma í veg fyrir að uppreisnarmenn hertaki Damaskus og Aleppo, stærstu borgir landsins. Sprengjum hefur rignt yfir borgirnar í dag — ekki liggur fyrir hversu margir hafa fallið í stórskotaárásunum.

Háttsettur yfirmaður í sýrlenska hernum, stórfylkisforinginn Manaf Tlas, hefur nú svikist undan merkjum og flúið úr landi. Hann tilkynnti í dag að hann væri reiðubúinn að miðla málum milli stríðandi fylkinga í Sýrlandi.

Þá hafa yfirvöld í Tyrklandi hótað hernaðaraðgerðum gegn Sýrlandi ef blóðsúthellingar í norðurhluta landsins halda áfram. Tyrkir, sem eitt sinn studdu stjórnvöld í Sýrlandi heilshugar, hafa nú fordæmt Bashar al-Assad, forseta, og krefjast þess að hann fari frá völdum.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa lokað landamærum sínum að Sýrlandi. Aðeins sýrlenskir flóttamenn mega fara yfir landmærin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×