Erlent

Nútíma popptónlist er einsleit, hávær og ófrumleg

Justin Beiber.
Justin Beiber. mynd/AFP
Spænskir rannsakendur hafa loks staðfest það sem mörgum, ef ekki öllu, hefur grunað lengi: popptónlist er yfir heildina litið háværari en eldri tónlist og margfalt einfaldari.

Vísindamennirnir beittu nýstárlegum aðferðum við rannsóknir sínar. Þeir notuðust við hinn svokallaða Million Song Dataset gagnagrunn en þar er að finna nær alla popptónlist sem samin hefur verið síðustu 50 ár.

Þessi risavaxni gagnabanki brýtur niður tónlist í hljóma og söngtexta. Í kjölfarið geta vísindamenn brotið þessar upplýsingar niður í enn smærri einingar. Einfalt algrím er síðan notað til að sigta út leitni og tilhneigingu.

Í ljós kom að nútíma popptónlist er mun háværari en eldri tónlist. Hávaðinn hefur í raun stigmagnast síðustu ár. Þá hefur flóra hljóma og melódía orðið einsleit á síðustu 50 árum.

„Við höfum fundið vísbendingar um mikla jöfnun í tónlistarflórunni," sagði Joan Serra í samtali við fréttaveituna Reuters. Serra er sérfræðingur á sviði gervigreindar. „Þá er einnig að finna ummerki um að fjölbreytileiki hljóma hafi rýrnað verulega á síðustu árum."

Rannsóknin birtist fyrr í vikunni í tímaritinu Scientific Reports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×