Erlent

Hörð átök í Aleppo í dag

KHN skrifar
Hörð átök brutust út í borginni Aleppo í Sýrlandi í dag. Stjórnarhermenn og uppreisnarmenn berjast um yfirráð í borginni en andspyrnumenn hafa hertekið stór svæði hennar. Sameinuðu Þjóðirnar og helstu þjóðarleiðtogar óttast mikið mannfall.

Stjórnarhermenn í Sýrlandi notuðu þungavopn og orrustuþyrlur til að hrekja uppreisnarmenn á brott úr Aleppo, stærstu borg Sýrlands, í dag. Helstu samtök stjórnarandstæðinga í landinu, Frelsisher Sýrlands, hefur á síðustu dögum hertekið stór svæði í borginni en yfirráð yfir henni skipta sköpum í valdabaráttunni um landið.

Fregnir af átökunum eru óljósar og enn er ekki vitað fyrir víst hversu margir hafa fallið í dag. Samkvæmt sýrlenskum mannréttindasamtökum hafa þó að minnsta kosti 90 látist í borginni í dag. Sameinuðu Þjóðirnar ásamt mörgum þjóðarleiðtogum hafa varað við því að stórfelldar árásir verði gerðar á íbúa Aleppo og óttast margir að gríðarlegt mannfall verði í átökunum.

Íbúafjöldi Aleppo telur um það bil þrjár milljónir en borgin er þungamiðja viðskiptalífs Sýrlands. Aleppo er ein elsta borg veraldar - nú hafa hermenn umkringt hana, gráir fyrir járnum, og látið sprengjum rigna yfir hana.

Síðustu vikur hafa reynst yfirvöldum í Sýrlandi erfiðar. Uppreisnarmenn hafa hertekið mörg svæði í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Þá hafa nokkrir háttsettir einstaklingar í ríkisstjórn Bashar al-Assads, forseta Sýrlands, svikist undan litum og flúið land.

En á sama tíma hafa stjórnarhermenn eflt árásir sínar á andspyrnumenn og hafa hundruð fallið á síðustu dögum í landinu. Þá er talið að rúmlega 20 þúsund hermenn, andspyrnumenn og óbreyttir borgarar hafi látist síðan átök hófust í landinu fyrir 17 mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×