Erlent

Töluverð aukning á amfetamínsmygli til Danmerkur

Lögreglan í Danmörku lagði hald á samtals 240 kíló af amfetamíni í fyrra. Þetta er mesta magn af þessu fíkniefni sem náðst hefur á einu ári undanfarin 12 ár.

Í árlegri skýrslu dönsku lögreglunnar um fíkniefnamarkað landsins kemur fram að smygl á amfetamíni til Danmerkur hafi aukist töluvert á undanförnum árum og að árið í ár virðist ekki ætla að verða nein undantekning hvað þetta varðar.

Á móti kemur að smygl á e-pillum virðist hafa minnkað verulega en lögreglan lagði hald á rúmlega 16.000 e-pillur í fyrra sem er minnsta magn sem haldlagt er af þeim á síðustu 12 árum.

Og hvað varðar önnur hörð fíkniefni eins og heróín og kókaín virðist smygl á þeim hafa minnkað nokkuð á síðasta ári miðað við fyrri ár. Þá stóð hassið í stað milli ára en lögreglan náði tæpum 2,5 tonnum af því í fyrra.

Í frétt í Politiken kemur fram að lögreglan hefur áhyggjur af auknu umfangi amfetamínsmygls. Þannig stefnir í að smyglið í ár verði jafnvel meira en í fyrra. Tekið er dæmi um að þegar hafa náðst 80 kíló af amfetamíni í aðeins tveimur málum það sem af er árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×