Erlent

Tetra Pak erfingi handtekinn vegna andláts eiginkonu sinnar

Hans Kristian Rausing og eiginkona hans, Eva.
Hans Kristian Rausing og eiginkona hans, Eva.
Sonur mannsins sem fann upp útbreiddustu matvælaumbúðir veraldar hefur verið handtekinn eftir að eiginkona hans, Eva, fannst látin á heimili þeirra hjóna í Lundúnum. Breski fréttavefurinn The Daily Mail greinir frá því að Hans Kristian Rausing, sonur Svíans Hans Rausing, hafi verið handtekinn í dag eftir að lögreglan fann eiginkonu hans látna á heimili þeirra. Svo virðist sem hún hafi látist af of stórum skammti lyfja eða fíkniefna.

Hans Kristian var handtekinn í gær en á honum fundust fíkniefni. Í kjölfarið fór lögreglan á heimili hans sem er í einu dýrasta hverfi Bretlands. Þar fundu þeir eiginkonu hans sem reyndist vera látin á efri hæð hússins. Bæði eru þau tæplega fimmtug.

Hjónin hafa átt við fíkniefnavanda að stríða samkvæmt Daily Mail en þar kemur fram að Rausing hafi verið handtekinn fyrir fjórum árum þegar hann smyglaði heróíni og krakki inn í bandaríska sendiráðið í Lundúnum.

Í kjölfarið leitaði lögreglan á heimili þeirra hjóna og fundu þá meira krakk og heróín og að auki kókaín að andvirði 2000 punda, sem eru um 400 þúsund krónur á núvirði.

Hans Kristian mun erfa yfir fimm milljarða punda en faðir hans fann upp matvælaumbúðirnar Tetra Pak. Þær eru meðal annars notaðar til þess að geyma mjólk og eru útbreiddustu matvælaumbúðir veraldar.

Hans situr þó ekki einn að arfinum því hann á tvö systkini. Samkvæmt frétt Daily Mail var eiginkona Hans krufin í dag, ekki er vitað um niðurstöður þeirrar krufningar. Þá er hann sjálfur í yfirheyrslum hjá Scotland Yard vegna málsins en hann er grunaður um að hafa átt þátt í dauða konu sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×