Erlent

"Gras-passinn“ hefur uggvænlegar afleiðingar

BBI skrifar
Nýjar reglur til að stemma af sölu kannabisefna í svokölluðum kaffihúsum í Suður-Hollandi hafa óhagstæð áhrif samkvæmt nýrri rannsókn.

Þann 1. maí á þessu ári var „gras-passinn" kynntur til sögunnar á svæðinu. Hann er nokkurs konar félagsskírteini sem fólk þarf að hafa til að versla kannabis úr kaffihúsum. Upphaflega átti hann að stemma stigu við eiturlyfjaferðalöngum frá Þýskalandi, Belgíu og Frakklandi sem ferðuðust til Hollands til að kaupa lögleg kannabisefni.

Þetta reyndust ekki einu afleiðingarnar sem „gras-passinn" hafði. Upptaka hans hefur nefnilega líka reynst himnasending fyrir svartamarkaðinn á svæðinu, en ólöglega sala kannabisefna hefur aukist mjög og auk þess hefur sprottið upp fjöldi símanúmera sem fólk getur hringt í til að nálgast eiturlyf. Þetta eykur líkur á að fíkniefnaneytendur komist í kynni við harðari efni að mati þeirra sem gerðu rannsóknina.

Reglur um „gras-passann" hafa enn ekki tekið gildi alls staðar í Hollandi og rannsóknin sem hér um ræðir var gerð svo fólk annars staðar í landinu gæti vitað á hverju það á von.

Fréttamiðillinn Radio Netherlands segir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×