Sport

Jakob Jóhann komst á Ólympíuleikana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valgarður
Jakob Jóhann Sveinsson, sundmaður úr Ægi, fékk í hádeginu í dag formlegt boð um að keppa í 100 m bringusundi a Ólympíuleikunum í Lundúnum sem hefjast síðar í mánuðinum.

Sundsamband Íslands fékk tilkynningu þess efnis frá FINA, Alþjóðasundsambandinu. Jakob Jóhann hafði náð svokölluðu OST-lágmarki á leikana og nægilega góðum tíma til að fá boð FINA.

Fram kemur á heimasíðu Sundsambandsins að það bíði nú staðfestingu á stöðu þeirra Árna Más Árnasonar og Antons Sveins McKee. Báðir náðu OST-lágmörkum í sínum greinum.

Jakob Jóhann er fyrsti íslenski karlmaðurinn sem fær þátttökurétt á leikunum í sundi en Eygló Ósk Gústafsdóttir, Sarah Blake Bateman og Hrafnhildur Lúthersdóttir voru áðar búnar að tryggja sér farseðilinn til Lundúna. Sem og Eva Hannesdóttir, sem keppir í boðsundi ásamt hinum þremur sundkonunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×