Erlent

Hawking lélegur í veðmálum - tapaði 100 dollurum á bóseindinni

Eðlisfræðingar og vísindamenn víða um heim fagna rannsóknarniðurstöðum kollega sinna í CERN. Nægar sannanir eru nú fyrir hendi til að áætla að Higgs-bóseindin sé til.

En tíðindin eru ljúfsár fyrir eðlisfræðinginn merka Stephen Hawking. Hann tapaði nefnilega 100 dollurum eða það sem nemur 12.700 íslenskum krónum þegar niðurstöðurnar voru kynntar.

Þegar Peter Higgs gat sér til um tilvist bóseindarinnar á sínum tíma mynduðust miklar umræður í vísindasamfélaginu. Hawking efaðist ávallt um hugmyndir Higgs og gekk svo langt að leggja 100 dollara undir í veðmáli við bandaríska eðlisfræðinginn Gordon Kane — hann hafði tröllatrú á að eindin væri raunveruleg.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC sagði Hawking að hann sjái ekki eftir peningunum. Uppgötvunin sé ífið merkilegri en nokkrir dollarar.

Hawking virðist hafa gaman af veðmálum — þá sérstaklega þegar vísindi eru annars vegar. Fyrir nokkrum árum veðjaði hann við eðlisfræðinginn Kip Thorne um að tilvist svarthola yrði aldrei sönnuð. Svo öruggur var Hawking að hann lagði undir tölublað af Penthouse klámblaðinu. Hann tapaði því veðmáli einnig.

Hægt er að sjá viðtal við Hawking um rannsóknarniðurstöður eðlisfræðinga CERN hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×