Erlent

Spánverjar endurheimta einn helsta menningarfjársjóð sinn

Spánverjar hafa endurheimt einn af helstu menningarfjársjóðum sínum. Um er að ræða trúarlegt handrit sem skrifað var árið 1150 en því var stolið fyrir ári síðan.

Handrit þetta ber nafnið Codex Calixtinus og spænska lögreglan fann það í bílskúr nálægt borginni Santiago de Compostela höfuðstað Galisíu á Norður Spáni. Það hafði áður verið geymt í dómkirkju borgarinnar en hún er byggð á því sem talið er vera grafreitur Jakobs postula. Jakob á að hafa boðað fagnaðarerindið á Spáni samkvæmt helgisögnum.

Raunar fjallar handritið, sem er ríkulega myndskreytt, m.a. um pílagrímaför til grafreitsins en á miðöldum taldist bærinn þriðji helsti áfangastaður pílagríma á eftir Jerúsalem og Róm.

Í tenglum við þetta mál var einn af starfsmönnum dómkirkjunnar handtekinn ásamt þremur ættingjum sínum. Vitað er að starfsmaðurinn hafði aðgang að þeirri hvelfingu kirkjunnar sem handritið var geymt í þegar því var stolið fyrir ári síðan.

Í bílskúrnum fundust þar að auki fleiri gömul handrit og um 1,2 milljónir evra eða um 190 milljónir króna í reiðufé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×