Erlent

Tanishq - Níu ára gamall stjarneðlisfræðingur

Tanishq Abraham
Tanishq Abraham mynd/YouTube
Tanishq Abraham er enginn venjulegur piltur. Þessi níu ára gamli drengur mun nefnilega ljúka við háskólanám sitt á næstu mánuðum.

Það varð fljótt ljóst að Tanishq væri ekki eins og önnur börn. Þegar hann var aðeins tveggja ára gamall gat hann talið frá einum og upp í hundrað. Foreldrar hans tóku fljótt eftir því að hann var bráðgáfaður og sýndi ótrúlega þroska, bæði við lærdóm sem og leik.

Tanishq gekkst undir greindarpróf. Grunur foreldra hans reyndist réttur. Þegar niðurstöðurnar komu í hús var ljóst að Tanishq litli var afburðagreindur.

Fljótleg eftir þetta fékk hann inngöngu í Mensa en það er alþjóðlegur hópur fólks með háa greind. Stuttu eftir það hélt Tanishq upp á fjögurra ára afmælið sitt.

Síðustu tvö ár hefur hann stundað nám af mikilli elju, bæði heimafyrir sem og í American River háskólanum í Sacramento. Tanishq hefur jafnvel fengið að vera gestafyrirlesari í skólanum.

Áhugamál hans eru fjölbreytt. Það eru þó stjörnurnar sem hafa ávallt heillað hann. Tanishqhefur gríðarlegan áhuga á stjarneðlisfræði og hefur skrifað nokkrar lærðar greinar um leit að vitsmunalífi í alheiminum.

Aðspurður um hvað hann vilji gera þegar hann verður stór segir Tanishq að hann vilji verða læknir, vísindamaður og forseti Bandaríkjanna.

Hægt er að sjá stutta heimildarmynd um Tanishq hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×