Erlent

Leðurblökumaðurinn þarf stærri skikkju að mati eðlisfræðinema

Nokkrir nemar í eðlisfræði í háskólanum í Leicester í Bretlandi hafa reiknað út að ofurhetjan Batman gæti hugsanlega svifið, en fallið myndi verða honum að bana. Þannig tóku nemarnir út atriði úr kvikmyndinni Batman Begins, en þar má sjá ofurhetjuna svífa töluverða vegalengd og lenda svo óskaddaða eins og ofurhetjum er tamt.

Í rannsókn sinni reiknuðu þeir út að ef ofurhetjan stykki fram af 150 metra hárri byggingu og að skikkja leðurblökumannsins væri 4,7 metrar myndi hann líklega svífa heila 350 metra.

En þá fyrst fer stökkið að verða lífshættulegt. Nemarnir reiknuðu út að hetjan myndi svífa á 109 kílómetra hraða og þannig yrði fallið honum að öllum líkindum að bana - sé miðað við að fall á 50 kílómetra hraða er nær örugglega banvænt fyrir venjulegan mann.

Í viðtali við nemana á fréttavef Reuters segir neminn David Marshall að ef leðurblökumaðurinn ætli sér að endurtaka svifið í nýjustu mynd sinni, The Dark Knight Rises, þá verði hann að kaupa sér stærri skikkju til þess að draga úr hraðanum. Ef hetjan er ólm í að halda útlitinu óbreyttu, er einnig mögulegt að verða sér úti um einhverskonar mótor eða hreyfil sem gæti dregið úr fallinu. Það ætti svo sem að vera auðsótt mál, sérstaklega í ljósi þess að Blaki á óvanalega fjölbreytt úrval af tækjum og tólum.

Svo má náttúrulega benda nemunum á að í draumaborginni er hægt að brjóta flest öll lögmál eðlisfræðinnar - ef ekki öll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×