Viðskipti innlent

Arion banki hafnar tilboði frá Bakkavararbræðrum

Magnús Halldórsson skrifar
Ágúst og Lýður Guðmundssynir, eru við stjórnvölinn hjá Bakkavör. Ágúst er forstjóri og Lýður stjórnarformaður.
Ágúst og Lýður Guðmundssynir, eru við stjórnvölinn hjá Bakkavör. Ágúst er forstjóri og Lýður stjórnarformaður.
Arion banki hefur hafnað tilboði frá Bakkavararbræðrunum Ágústi og Lýði Guðmundssonum, í hlut bankans í Bakkavör.

Eins og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 á föstudag hafa Bakkavararbræður að undanförnu nálgast hluthafa í Bakkavör og boðist til þess að kaupa af þeim hlutinn í félaginu. Lífeyrissjóðirnir Gildi og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem eiga samtals ríflega 12 prósent hlut, hafa báðir gefið það út að þeir ætli ekki að selja bræðrunum hlutinn sinn heldur frekar freista þess að halda á hlutnum og vonast til þess að verðmæti hans aukist með tímanum.

Bakkavör var árið 2010 stærsta fyrirtæki í íslenskri eigu, samkvæmt Frjálsri verslun, en starfsemi félagsins er í Bretlandi. Það framleiðir tilbúna matrétti fyrir verslanir. Velta félagsins í lok árs 2010, nam tæplega 300 milljörðum króna.

Arion banki, sem á stærstan hlut í félaginu, eða 34 prósent, ræður miklu um hvort Bakkavararbræður ná yfirráðum yfir félaginu en hlutur þeirra er í tæplega 26 prósent, en hlutur annarra hluthafa er 74 prósent.

Bakkavararbræður eignuðust sinn hlut í félaginu eftir endurskipulagningu með því að kaupa hann á fjóra milljarða króna, en hluti af þessum kaupum var tæplega 7 prósent hlur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem bræðurnir keyptu á ríflega einn milljarð. Tilboð bræðranna í hluti annarra hluthafa byggir á sama verðmati og kaup þeirra á fjórðungshlutnum tóku mið af. Miðað við það er virði Bakkavarar 16 milljarðar króna.

Í fréttum Stöðvar 2 sl. föstudag var frá því greint að stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum hefðu rætt það á stjórnarfundum, og spurt, hvaðan Bakkavararbræður fái peninga til þess að kaupa félagið.

DV fjallar um þetta í dag, og setur arðgreiðslur til Bakkavararbræðra út úr fjárfestingafélaginu Exista, þar sem þeir voru stærstu hluthafar fyrir hrunið, í þetta samhengi. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að Bakkavararbræður hafi fengið 8,7 milljarða króna í arð á árunum 2005 til 2007 vegna afkomu félagsins á undagengnu rekstrarári hvers árs.

Efnahagsreikningur Exista, sem nú er í eigu kröfuhafa og starfar undir nafninu Klakki ehf., var í evrum á þessum tíma. Sé mið tekið af því hvernig gengi krónunnar gagnvart evru hefur þróast frá þeim tíma er arðgreiðslurnar áttu sér stað, þ.e. með gengisfallinu sem fylgdi hruni bankakerfisins, þá er upphæðin nærri 20 milljörðum króna að núvirði.



Uppfært: 19:16. Arion banki hefur hafnað tilboði frá Bakkavararbræðrum, fréttin var uppfærð í samræmi við upplýsingar um það.










Tengdar fréttir

Fréttaskýring: Bakkavararbræður gera milljarðatilboð í félagið

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hafa gert tilboð til allra hluthafa í Bakkavör Group og vilja eignast félagið sem þeir stofnuðu að fullu. Þeir hafa boðið verð sem er hærra en það sem var á nýlegri hlutafjáraukningu. Þar eignuðust bræðurnir 25 prósenta hlut fyrir um fjóra milljarða króna. Miðað við það er ljóst að bræðurnir hafa boðið á annan tug milljarða króna hið minnsta í hlut annarra í Bakkavör Group.

Kröfuhafar með stjórnartaumanna

Á aðalfundi Bakkavarar Group sem haldinn var 23. maí síðastliðinn samþykktu kröfuhafar umtalsverðar breytingar á félaginu. Í þeirri breytingu fólst meðal annars að íslenskir kröfuhafar Bakkavarar Group, að mestu bankar og lífeyrissjóðir, breyttu kröfum sínum í hlutafé og eignuðust félagið að mestu. Samhliða fengu Ágúst og Lýður Guðmundssynir að kaupa um fjórðungshlut í því á um fjóra milljarða króna.

Bakkavararbræður vilja eignast Bakkavör

Ágúst og Lýður Guðmundssynir hafa gert lífeyrissjóðum og bönkum tilboð í hlutabréf í Bakkavör með það fyrir augum að eignast félagið að fullu. Þeir hafa þegar keypt hluti í félaginu fyrir fjóra milljarða, meðal annars af Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Aðrir hluthafar reyna nú að halda yfirráðum í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×