Innlent

Segjast ekki sekir um að hafa svipt bræður frelsi sínu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Elís Helgi Ævarsson og Steindór Hreinn Veigarsson neituðu báðir að hafa svipt tvo bræður frelsi og reynt að ræna þá þegar ákæra gegn þeim var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Mönnunum er gefið að sök að hafa farið heim til karlmanns í Grafarvogi, þar sem hann var staddur ásamt bróður sínum og ógnað bræðrunum með framkomu sinni. Steindór Hreinn hafði vasahníf í hendi og haft uppi hótanir um að beita þá líkamlegu ofbeldi ef annar bróðurinn yrði ekki við kröfu ákærða Elísar Helga um að afhenda honum allt að 500 þúsund krónur. Elís Helgi fór því næst með manninum, gegn vilja hans, í útibú Íslandsbanka að Stórhöfða 17, í þeim tilgangi að hann tæki þar út peninga af bankareikningi sínum.

Steindór Hreinn varð eftir í Grafarvoginum með hinum bróðurnum, sem komst ekki burt úr íbúðinni af ótta við Steindór Hrein vegna ógnandi framkomu hans, og var bróðirinn þannig sviptur frelsi sínu í allt að klukkustund. Ekki kom til úttektar fórnarlambsins af bankareikningnum þar sem lögregla kom á vettvang og handtók Elís Helga.

Bæði Elís Helgi og Steindór Hreinn eiga langa brotasögu að baki en Elís Helgi var meðal annars fundinn sekur um morð á áttræðri konu, móður Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×